5 janúar 2021

Bakhlið kaupsamninga

image

Bakhlið kaupsamninga

Á bakhlið kaupsamnings eru ýmsar mikilvægar upplýsingar varðandi kaupferlið. Hér verður farið nánar yfir nokkur atriði og svör við algengum spurningum sem við fáum reglulega.

 

Afhending eigna

Afhending á eign skal ávalt vera á hádegi umsamins dags nema um annað sé samið. Skila þarf eigninni hreinni og snyrtilegri af sér. Þá skal seljandi hafa rýmt eignina þ.e. fjarlægt hvers konar hluti og tilfæringar, sem ekki eiga að fylgja eigninni, svo og skal seljandi þá hafa greitt alla gjaldfallna reikninga vegna rafmagns og hita og látið lesa af mælum. Öll áhætta af því að fasteign skemmist eða eyðileggist af tilviljun t.d. bruna, flóði eða þess háttar hvílir á seljanda fram að afhendingu. Eftir það hvílir áhættan á kaupanda. Skemmdir, sem verða á íbúð fyrir afhendingu, en eftir að íbúð er sýnd eða kaupsamningur gerður, skal seljandi lagfæra á sinn kostnað.

 

Búnaður sem fylgir fasteigninni 

Sé ekki um annað samið skal eign hafa þann búnað eða réttindi sem var fyrir hendi við skoðun og/eða á að fylgja samkvæmt lögum, kaupsamningi, öðrum gögnum eða venju.

Eftirfarandi búnaður sem skal fylgja:

● Eldavél, ofn og vifta skal vera í eldhúsi.

● Í baðherbergi fylgja föst hengi, innréttingar og tæki svo og skápur yfir eða við vask.

● Múr- og naglfastar uppistöður og hillur í geymslu.

● Föst ljós og ljósakúplar skulu vera í eldhúsi, baðherbergi og sérþvottahúsi og a.m.k. eitt perustæði í hverju herbergi.

● Allar múr- og naglfastar innréttingar, spegilflísar, gluggatjaldastangir og festingar.

● Rimla-, strimla- og rúllugluggatjöld, en þó ekki gluggatjöld.

● Sjónvarpsloftnet og festingar í eigu seljanda (þó ekki gervihnattadiskur í séreign ef um hann er að ræða). Sé komin ljósleiðaratenging skal sá búnaður fylgja.

● Í bílskúr fylgir fastur ljósabúnaður, rafknúnir hurðaopnarar svo og fastar hillur og skápar

 

Gallar 

Þegar seljandi hefur afhent fasteign, skal kaupandi svo fljótt sem verða má, skoða eignina á þann hátt sem góð venja er. Ef kaupandi sinnir ekki þessari skyldu sinni getur hann glatað rétti til þess að hafa uppi kröfur vegna galla. Hafi kaupandi einhver umkvörtunarefni fram að færa vegna ástands á eigninni eftir afhendingu, skal hann beina umkvörtun sinni skriflega til seljanda sem allra fyrst og senda fasteignasölunni afrit. Gott er að hafa í huga að fasteign telst ekki gölluð nema ágalli rýri verðmæti hennar. Það þýðir að smávægilegir ágallar sem rýra ekki verðmæti fasteign telst ekki sem galli á eigninni.