11 janúar 2021

Fasteignamarkaðurinn 2020

image

Fasteignamarkaðurinn hér á landi hefur verið heldur líflegur á árinu þrátt fyrir heimsfaraldur. Þetta var stórt ár fyrir fyrstu kaupendur en þeir hafa aldrei verið fleiri. Talið er að betri lánamöguleikar, hagstæð lánskjör og aukning kaupmáttar hafi ýtt undir hækkandi fjölda fasteignaviðskipta á árinu.

Í byrjun árs voru fasteignaviðskipti fremur eðlileg miðað við sama tímabil í fyrra þó svo að kórónufaraldurinn hafi skapað verulega óvissu á markaðnum. Fasteignaviðskipti fóru svo minnkandi í mars og apríl þegar innanlandssmitum fjölgaði og samkomutakmarkanir tóku gildi. Þegar samkomutakmörkunum var aflétt í maí og Seðlabankinn lækkaði vexti fjölgaði fasteignaviðskiptum talsvert og hafa verið í hæstu hæðum síðan þá. Í kjölfarið fór íbúðaverð að hækka verulega milli mánaða en mesta hækkunin var 1,2% á milli mánaða í júlí.

Framboð íbúða til sölu fór lækkandi í sumar en í ágúst voru 15% færri íbúðir til sölu en á sama tímabili í fyrra. Fjöldi íbúða í fjölbýli hafði fækkað um 10% á meðan sérbýli höfðu fækkað um 40%. Frá því í fyrra hefur söluverð íbúða hækkað úr 2,2% meðaltalshækkun yfir í 3,7% meðaltalshækkun. Þá hafa sérbýli hækkað meira í verði en fjölbýli.

Samtals voru um 5.700 kaupsamningar um fasteignir gefnir út frá janúar til september 2020 en það er 9% aukning miðað við sama tímabil á síðasta ári. Fjöldi kaupsamninga var mestur í september, eða 882 undirritaðir kaupsamningar en um er að ræða metfjölda síðan í júní 2007.

Í ár var metfjöldi fyrstu kaupenda um allt land á fasteignamarkaðnum. Hæsta hlutfall fyrstu kaupenda mældist á þriðja ársfjórðungi en það voru 32% á höfuðborgarsvæðinu og 31% á landsbyggðinni. Það sem hefur mögulega ýtt undir þessa fjölgun á fyrstu kaupendum eru t.a.m. mikil lækkun á vöxtum og aðgerðir stjórnvalda um ráðstöfun séreignarsparnaðar til íbúðarkaupa sem hefur auðveldað tekjulágum einstaklingum við að eignast sína fyrstu íbúð.

Talið er að vaxtalækkanir munu halda áfram að stuðla að hækkun íbúðaverðs sem og aðgerðir stjórnvalda til að hjálpa fyrstu kaupendum við íbúðarkaup. Landsbankinn gerir ráð fyrir 4,5% hækkun íbúðaverðs á milli ára í ár og að jafnaði verður vöxturinn 4% næstu árin.

-----

Heimildir:
Mánaðarskýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) Nóvember 2020.
Þjóðhagur, ársrit Hagfræðideildar Landsbankans 2020.