29 apríl 2021

Fasteignamarkaðurinn á fyrsta ársfjórðungi 2021

image

Fasteignamarkaðurinn á fyrsta ársfjórðungi 2021

Árið 2020 var metár í fasteignaviðskiptum en þinglýstir kaupsamningar voru um 12.100 talsins sem eru 14% fleiri kaupsamningar en árið 2019. Þó er talið að fasteignamarkaðurinn hér á landi sé að róast þar sem kaupsamningum fækkaði verulega í desember 2020 frá fyrri mánuðum en mikið líf hefur verið á fasteignamarkaðnum frá því síðasta sumar.

Kaupsamningum hélt áfram að fækka í janúar 2021, eða um 28,8% í samanburði við desember og velta lækkaði um 8,1%. Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði samningum um 30,7% á sama tímabili og velta lækkaði um 37,7%. Fasteignaviðskiptin á landinu voru 967 talsins, þar af 620 viðskipti á höfuðborgarsvæðinu.

Í febrúar 2021 jókst fasteignaveltan á ný, eða um 7,1% á öllu landinu og um 5,2% á höfuðborgarsvæðinu miðað við janúar. Kaupsamningum fjölgaði á öllu landinu um 11,2% á sama tímabili og 9,6% á höfuðborgarsvæðinu. Það voru 1.241 fasteignaviðskipti á landinu, þar af 1.128 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði sem er um 27% fleiri en á sama tímabili í fyrra.

Í febrúar 2021 hafði vísitala íbúðaverðs hækkað um 0,6% á milli mánaða.
Íbúðaverð á fjölbýli hækkaði um 0,9% á meðan verð á sérbýli lækkaði um 0,6%. Þá hefur verð á fjölbýli hækkað meira en verð sérbýlis á þessu tímabili, eða um 7,2% og verð á sérbýli um 6,3%.
Kaupsamningum hélt áfram að fjölga í mars 2021, eða um 25,2% í samanburði við febrúar og velta hækkaði um 29,1%. Alls voru 1.648 fasteignaviðskipti á landinu öllu, þar af 90,3% kaupsamningar um íbúðarhúsnæði og hafa kaupsamningar aldrei verið fleiri frá árinu 2006.
Fjöldi kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu var 1.020 en þeim fjölgaði um 21,4% miðað við í febrúar og velta hækkaði um 28%.

Vísitala íbúðaverðs hækkaði einnig í mars 2021, eða um 1,6% á milli mánaða. Þegar horft er yfir 12 mánaða tímabil hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 8,9%.

---
Heimildir:
Vefsíða Þjóðskrá Íslands.
Mánaðarskýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) Febrúar 2021.