05.01.2021

Hlutdeildarlán

Hlutdeildarlán 

Við fögnum því að nú er loks í boði úrræði fyrir tekju- og eignaminni einstaklinga til að brúa bilið við fyrstu fasteignakaup. Það eru eflaust margir sem hafa beðið eftir slíkri lausn en nú þegar hafa borist fjölmargar umsóknir um hlutdeildarlán. Hér förum við yfir helstu atriði varðandi hlutdeildarlánin.

 

Helstu skilyrði hlutdeildarlána

Hlutdeildarlán er fyrir þá sem eru fyrstu kaupendur og þeir sem ekki hafa átt fasteign sl. fimm ár sem eru undir ákveðnum tekjumörkum. Umsækjandi þarf að standast greiðslumat en þó má afborgun lánsins ekki nema meira en 40% ráðstöfunartekna. Umsækjandi þarf að leggja fram að lágmarki 5% eigið fé en það er t.d. hægt að nýta uppsafnaðan séreignarsparnað við kaup á fyrstu fasteign.

 

Hvernig virka hlutdeildarlánin? 

Hlutdeildarlánin virka þannig að kaupandi leggur til að lágmarki 5% eigið fé og tekur 75% fasteignalán hjá lánastofnun til allt að 25 ára sem fer á 1. veðrétt. HMS veitir svo kaupanda 20% hlutdeildarlán af kaupverði sem fer á 2. veðrétt. Kaupendur með enn lægri tekjur geta þó fengið allt að 30% hlutdeildarlán.

Lánin eru til 10 ára en heimilt er að framlengja þau um fimm ár í senn. Hámarks lánstími hlutdeildalána eru 25 ár. Lánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum en lánin hækka og lækka þó í takt við verðbreytingu eignarinnar. Lántaki endurgreiðir hlutdeildarlánið þegar hann selur eignina eða við lok lánstíma.

HMS úthlutar hlutdeildarlánunum og fer úthlutunin fram sex sinnum á ári. Umsóknir njóta forgangs ef fasteignin er samþykkt af HMS og ef samþykkt kauptilboð liggur fyrir.

 

Hvaða fasteignir falla undir hlutdeildarlán? 

Lánað er fyrir kaupum á nýbyggðum íbúðum eða íbúðum á landsbyggðinni sem hafa verið mikið endurnýjaðar og verða þær að vera samþykktar af HMS. Íbúðir þurfa að uppfylla skilyrði um ákveðin verðmörk, stærðarhlutföll og herbergjafjölda.

*Hér* (linkur) má sjá íbúðir til sölu hjá okkur sem falla undir hlutdeildarlánin.

 

Viltu vita meira? 

Nánari upplýsingar um hlutdeildarlán má finna á www.hlutdeildarlan.is Þú sækir um hlutdeildarlán hér - www.hlutdeildarlan.is/umsokn