04.03.2021

Góð ráð fyrir kaupendur

Fyrir langflesta eru fasteignakaup stærsta fjárfesting sem það mun nokkurn tímann gera á ævinni og mikilvægt að undirbúa sig vel. Það er því gott að hafa nokkra hluti í huga áður en þú tekur ákvörðun um kaup á þinni drauma fasteign.

Undirbúðu þig vel

Við mælum með að kanna möguleikana á lánamarkaði vel, s.s. ákveða hvar og hvers konar fasteignalán þú ættir að taka áður en þú byrjar að bjóða í fasteign. Vertu búinn að fara í greiðslumat og athuga hversu hátt lán þú getur fengið. Því betur sem þú ert undirbúin/n, því meiri líkur eru á samþykktu kauptilboði, sérstaklega ef mikil samkeppni er um eignina.


Seldu fyrst gömlu fasteignina

Annað sem er talið auka líkurnar á samþykktu kauptilboði er þegar þú hefur nú þegar selt fasteignina þína, sérstaklega í þeim tilvikum þar sem mikill áhugi er á eigninni og mörg kauptilboð á borðinu. Þú veist einnig betur hvar þú stendur fjárhagslega og getur þannig gert betur grein fyrir hversu dýra eign þú getur keypt.

Skoðaðu ástand fasteignar vel á opnu húsi

Það er gífurlega mikilvægt að skoða eignina vel á opnu húsi og kynna sér vandlega ástand eignarinnar áður en hún er keypt. Það hvílir rík skoðunarskylda á kaupanda samkvæmt lögum og þarf kaupandi sjálfur að bera ábyrgð á að finna sjáanlega galla við ítarlega skoðun. Kannaðu t.d. hvort einhver merki séu um raka, myglu og aðrar slíkar skemmdir. Það er einnig æskilegt að athuga virkni allra raftækja sem fylgja eigninni, s.s. eldavélar, ofnar, auk þess að athuga hvernig klósett, blöndunartæki o.fl. virka. Ef eitthvað er óljóst eða ekki sjáanlegt er mikilvægt að spyrja fasteignasala frekar um ástand eignarinnar. Ef skoða þarf ákveðinn hlut sérstaklega skal leita til sérfræðinga um nánari ástandsskoðun og setja fyrirvara um ástandsskoðun inn í kauptilboðið.

Tilboðsgerðin

Oft er fólk í vafa um hversu háa upphæð það eigi að bjóða í fasteignina. Gott er að hafa í huga að fasteignasölum er óheimilt að veita upplýsingar um upphæðir annara tilboða. Ef þú veist að mikill áhugi er á eigninni og margir tilboðsgjafar er ávallt ráðlagt að bjóða sitt besta boð í eignina. Fyrirvarar geta einnig skipt miklu máli en ekki skal setja fyrirvara í tilboð nema þörf sé á því. 

Gallar eftir afhendingu

Hafir þú einhver umkvörtunarefni fram að færa vegna ástands eignarinnar eftir afhendingu skaltu greina frá slíku sem allra fyrst. Þá beinir þú umkvörtun þinni skriflega til seljanda og sendir fasteignasölunni afrit. Mikilvægt er að sinna þessari skyldu eins fljótt og verða má því annars er hætta á að þú glatar rétti til þess að hafa uppi kröfur vegna galla. Hafðu þó í huga að smávægilegir gallar sem rýra ekki verðmæti fasteignar telst ekki sem galli á eigninni.