14.09.2021

Það þarf ekki að vera flókið að kaupa fasteign

Mörgum vex það í augum að kaupa sér sína fyrstu fasteign og reka sig á lögfræðileg hugtök sem virðast óskiljanleg. En örvæntið ekki! Það er í raun lítið mál fyrir fólk að koma sér inn á markaðinn og svo hefurðu sérfræðinga RE/MAX sem leiða þig gegnum sérhvert skref.


Fyrst þarftu að finna eign sem hentar í verðflokki þú ræður við. Það er gott að byrja á því að fara í greiðslumat hjá banka eða lífeyrissjóði til að kanna hversu hátt lán þú getur fengið. Eftir að draumaeignin hefur verið fundin er lagt fram kauptilboð með aðstoð fasteignasalans. Mikilvægt er að hafa í huga að kauptilboðið er skuldbindandi. Ef að vafi leikur á ástandi eignar er hægt að láta þriðja aðila framkvæma ástandsskoðun. Þar er markmiðið að finna og skrá skemmdir og galla á fasteign sem geta haft veruleg áhrif á verðmat, sölu og bótarétt.


Ef að kauptilboð í eign er samþykkt, eða gagntilboð gert sem þú sættir þig við, þarf að huga að því hvers konar lán þú vilt taka. 

Verðtryggð íbúðalán eru tengd við verðþróun sem þýðir að upphæð höfuðstólsins hækkar ef að verðbólgan fer á flug. Óverðtryggð lán eru hins vegar ekki tengd verðbólgu sem þýðir að lánið lækkar jafnt og þétt með tímanum. Helsti munurinn er að eignamyndun er hraðari ef þú tekur óverðtryggt lán, en mánaðarlegar afborganir af verðtryggðum lánum eru lægri, sérstaklega í byrjun lánstímans. Þá er hægt að fara bil beggja með blönduðu húsnæðisláni þar sem vextir eru breytilegir en líka hægt festa tímabundið.

 

Eftir að kauptilboð er samþykkt er fljótlega boðað til kaupsamnings. Þar eru njörvuð niður öll samningsákvæði milli kaupenda og seljenda. Þegar síðasta greiðsla kaupsamnings er reidd af hendi fer fram afsal á eigninni. Við afsalið á sér stað margháttað uppgjör milli kaupenda og seljenda, þar á meðal svokölluð afsalsgreiðsla eftir að allar skyldur samkvæmt kaupsamningi hafa verið uppfylltar.